Fæðingarorlof og jafnrétti

Sæunn Gísladóttir starfar sem blaðamaður. Sæunn er hagfræðingur að mennt og útskrifuð frá St. Andrews háskóla í Skotlandi þar sem hún skrifaði BA verkefni sitt um þróun fæðingarorlofstöku á Íslandi.

25.04.2016, Sæunn Gísladóttir
Fæðingarorlof og jafnrétti Sæunn Gísladóttir, hagfræðingur og blaðamaður Mynd: Haraldur Guðjónsson

Hvenær ætlum við að bregðast við?

Lækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hefur valdið því að mun lægra hlutfall karla tekur fæðingarorlof en áður og þeir sem taka það taka færri daga en áður. Þetta hefur gríðarlega neikvæð áhrif á stöðu jafnréttismála í landinu. Endurreisn fæðingarorlofskerfisins hér á landi gæti kostað á bilinu tvo til fimm milljarða á ári, en brýn þörf er á því - ekki síst til að koma í veg fyrir minnkandi frjósemi. Þetta er niðurstaða BA ritgerðar minnar Equal Parenting? - Policy lessons from 15 years of equal rights to parental leave in Iceland. Í henni sýni ég fram á bein áhrif lækkunar á greiðsluþaki úr Fæðingarorlofssjóði á nýtingu feðra á orlofi sínu.

Íslenskir feður hafa löngum verið virkir þátttakendur í barnauppeldi og það að færri feður séu að taka fæðingarorlof, eða að taka það til skemmri tíma, hefur ekkert með áhugaleysi þeirra varðandi uppeldi að gera. Staðreyndin er sú að þegar barn fæðist er meirihluti foreldra í sambúð. Karlar eru lang oftast með hærri laun en konur og það þarf að taka ákvörðun um skiptingu orlofs út frá tekjumissi fjölskyldunnar. Það gefur því auga leið að móðirin, frekar en faðirinn, taki  þriggja mánaða orlofið sem foreldrar hafa til að deila.

Þessi þróun sem hefur átt sér stað frá hruni, að karlar nýti sér nú nær einungis sitt afmarkaða þriggja mánaða orlof og konur taki sína þrjá mánuði auk þess að taka þriggja mánaða sameiginlega leyfið, er mikið skref til baka í jafnréttismálum hér á landi. Þegar núverandi fæðingarorlofskerfi var sett á laggirnar árið 2000 var það eitt það fremsta í heiminum.

Í dag getur vinnuveitandi getur nokkurn veginn gefið sér það að kona sem hann ræður í vinnu muni hverfa af vinnumarkaði í sex mánuði vegna barneigna, en karlmaður að hámarki í þrjá, er ekki erfitt að sjá það fyrir sér að hann komi til með að ráða karlinn frekar. Á jafnréttisfundi sem ég var á í haust greindi ein kvennanna sem þar var viðstödd frá því að aftur væri farið að spyrja konur í atvinnuviðtölum hvort þær ætli að eignast börn. Þetta er grafalvarleg þróun sem þarf að bregðast við sem fyrst.

Áhrif lækkunar á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði hefur nú verið í umræðunni í fjölda ára. Hlutfall karla sem tekur fæðingarorlof hefur lækkað úr 90% árið 2008 í undir 80% á síðustu árum. Stjórnvöld hafa hingað til ekki tekið ákvörðun um að breyta þessu. Í ritgerðinni minni kem ég fram með tvær lausnir til þess að tryggja jafna skiptingu á orlofinu. Í fyrsta lagi, í ljósi þess að konur eru oft með barn á brjósti í sex mánuði og vilja því nýta meirihluta orlofsins, mætti lengja fæðingarorlofið úr níu í tólf mánuði og fengi þá hvert foreldri um sig sex mánuði í orlof.

Í öðru lagi mætti hækka hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þannig að þær séu meira í takt við raunveruleikann. Þegar þak var sett á hámarksgreiðslur árið 2005 hafði það einungis áhrif á foreldra með yfir 600 þúsund krónur í mánaðarlaun (jafnvirði rúmlega milljón króna á núvirði) sem var mjög lágt hlutfall þeirra sem var að taka fæðingarorlof. Í dag hefur hámarkið áhrif á foreldra sem eru með undir 500 þúsund krónur í mánaðarlaun, og er því rúmlega helmingi lægra en það var þegar það var fyrst sett á. Hækka mætti hámarksgreiðslurnar á ný þannig að þær hafi áhrif á mun færri foreldra, til að endurspegla upphaflegan tilgang greiðsluþaksins.

Í ritgerðinni áætla ég gróflega að lenging fæðingarorlofs myndi kosta ríkissjóð tvo til þrjá milljarða á ári og hækkun greiðsluþaksins myndi kosta í kringum tvo milljarða. Þetta eru vissulega talsverðir fjármunir, en við getum ekki setið lengur aðgerðarlaus, þörfin er of mikil. Þörfin fyrir feður að fá að eyða tíma með börnum sínum, þörfin fyrir það að fæðingarorlof hafi ekki áhrif á atvinnumöguleika kvenna, og þörfin fyrir landið sem er að glíma við lækkandi frjósemi. Fæðingarorlofskerfið verður að vera sterkt til að sporna gegn þeirri þróun.